Formáli forstjóra
Rekstur ÁTVR gekk samkvæmt áætlun á árinu. Sala áfengis var svipuð og í fyrra og samdráttur í sölu á vindlingum heldur áfram. Sala á neftóbaki jókst um 19%.
Á árinu kom út bókin „Engin venjuleg verslun“. Hún fjallar um sögu ÁTVR fyrstu 90 starfsárin en lög um einkasölu ríkisins á áfengi voru samþykkt á Alþingi árið 1921 og tóku þau gildi 1. janúar árið 1922. Lögin veittu ríkisstjórninni - og henni einni - heimild til að flytja inn áfengi með meira en 2,25% vínanda. Í framhaldinu var Áfengisverslun ríkisins sett á laggirnar. Í upphafi sá verslunin um sölu á spænskum vínum. Venjan er að miða við þriðja febrúar árið 1922 sem stofndag en þann dag tók fyrsti forstjóri verslunarinnar, P. L. Mogensen, til starfa. Þá voru áfengisverslanir opnaðar á öllum þéttbýlisstöðum landsins með kaupstaðaréttindi, þ.e. í Reykjavík, Hafnarfirði, á Ísafirði, Akureyri, Siglufirði, Seyðisfirði og í Vestmannaeyjum. Árið 1935 var leyfð sala á öllu áfengi nema bjór en 1. mars 1989 var sala bjórs leyfð á Íslandi. Árið 1961 var Áfengisverslun ríkisins sameinuð Tóbaksverslun ríkisins og heitir hún eftir það Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR.
ÁTVR hefur starfað óslitið frá stofndegi og er enn alfarið í eigu íslenska ríkisins. Í dag starfar ÁTVR eftir lögum nr. 86/2011. Árið 2018 var 96. starfsár verslunarinnar.
ÁTVR er B-hluta stofnun en það rekstrarform er líkt rekstri opinberra hlutafélaga. Í allri venjulegri umræðu er rætt um ÁTVR sem fyrirtæki, enda fær verslunin engin framlög úr ríkissjóði og er rekin sem sjálfstætt fyrirtæki. Reksturinn þarf að standa undir rekstrarkostnaði ásamt því að skila hæfilegum arði til eiganda síns. Stjórn var yfir versluninni um árabil en hún var lögð niður með lögum árið 2011.
Starfsemi ÁTVR er fjölþætt. ÁTVR er smásölufyrirtæki, dreifingarfyrirtæki, heildsala og framleiðslufyrirtæki. ÁTVR rekur áfengisverslanir og vefbúð. ÁTVR rekur sérstaka dreifingarmiðstöð sem sér um dreifingu vörunnar til Vínbúðanna. ÁTVR rekur heildsölu tóbaks en ÁTVR er eini kaupandi tóbaks af innflytjendum en þeir eru einkaaðilar. ÁTVR sér um endursölu og dreifingu tóbaks til þeirra sem hafa tóbakssöluleyfi. ÁTVR framleiðir neftóbak og selur í heildsölu. Neftóbakið hefur verið framleitt hjá ÁTVR frá því fyrir stríð og hefur framleiðslan verið nánast óbreytt frá upphafi.
ÁTVR var valin fyrirmyndarstofnun af SFR á árinu en viðurkenningin sýnir að starfsfólki líður vel í starfi og er ánægt með vinnustaðinn sinn.
Höfuðstöðvar ÁTVR eru á Stuðlahálsi 2 í Reykjavík. Þar eru skrifstofurnar, dreifingarmiðstöðin, neftóbaksframleiðslan og Vínbúðin Heiðrún til húsa. Á skrifstofunni starfa um fimmtíu starfsmenn. Meginsviðin eru tvö og stoðsviðin eru fjögur. ÁTVR notar eigin tölvu- og upplýsingakerfi og er ekki í neinum tengslum við tölvukerfi ríkisins. Fjárhagsupplýsingakerfið er Navision Dynamics og launa- og mannauðskerfið er íslenskt og heitir Kjarni. Eitt af stoðsviðunum er Mannauðs- og starfsþróunarsvið en ÁTVR er með umfangsmikla starfsþróun og eigin launadeild. Allar launagreiðslur til starfsfólks fara beint úr sjóðum ÁTVR en ekki frá launakerfi ríkisins. Á síðasta ári fengu rúmlega 700 manns laun sín greidd í gegnum kerfi ÁTVR. Verslunin greiðir arð af starfsemi sinni og frá árinu 2010 hefur ríkissjóður fengið 11 milljarða í arðgreiðslur frá fyrirtækinu. Heildarveltan á síðasta ári var rúmlega 45 milljarðar.
Í dreifingarmiðstöðinni starfa að jafnaði um 50 manns. Þar af eru 7 í neftóbaksframleiðslu og 12 sem vinna við heildsölu og dreifingu tóbaks. Dreifingarmiðstöðin er rekin á um 6200 fermetrum. ÁTVR á eigin bílaflota sem sér um dreifingu á vörum á höfuðborgarsvæðinu og nærsvæðum en annars eru flutningar til landsbyggðarinnar boðnir út. Alls eru notaðir um 40 lyftarar í starfseminni. Heildarveltuhraði er um 36 sem þýðir að vörunum í dreifingarmiðstöðinni er velt á um 10 daga fresti að jafnaði allt árið. Vörunúmer sem fara í gegn á ári eru um 4000 og á síðasta ári fóru 22 milljónir lítra í dreifingu. Um 600 nýjar vörur koma í dreifingu á hverju ári. Mikið hagræði er fólgið í því að taka á móti öllum vörum á einum stað. Við komuna er farið yfir vöruna og tryggt að hún sé í samræmi við pantanir og reglur um merkingar. Dreifingarmiðstöðin er alþjóðlegur vinnustaður en að jafnaði eru töluð þar sjö til átta tungumál.
Á síðasta ári voru framleidd 45 tonn af neftóbaki og hefur framleiðslan margfaldast á síðustu árum. Kannanir Landlæknis á notkun neftóbaks sýna að notendur eru sífellt að verða yngri og notkunin er að breytast. Fleiri og fleiri setja neftóbakið í munn en sala á munntóbaki er ólögleg á Íslandi. Framtíð neftóbaksins er í höndum stjórnvalda en heilbrigðisráðuneytið er að vinna að nýrri stefnumótun í tóbaksmálum.
Allt þarf að ganga upp
ÁTVR hefur einkaleyfi á smásölu áfengis og er því eini aðilinn á landinu sem má selja áfengi til almennings á Íslandi. ÁTVR rekur 51 áfengisverslun. Þær eru dreifðar um allt land en 14 eru á höfuðborgarsvæðinu. Að auki rekur ÁTVR vefbúð þar sem nálgast má flestar söluvörur sem verslunin hefur á boðstólum. Á síðasta ári komu rúmlega 5 milljónir viðskiptavina til ÁTVR. Þegar mest var að gera komu 611 viðskiptavinir í Vínbúðina Skeifunni á einum klukkutíma. Það gerir um 10 viðskiptavini á mínútu. Í versluninni eru fimm afgreiðslukassar og þennan klukkutíma tók það að meðaltali þrjátíu sekúndur að afgreiða hvern viðskiptavin á kassa. Það þýðir að á sex sekúndna fresti er einn viðskiptavinur afgreiddur í gegnum búðina. Líklega er þetta einn mesti afgreiðsluhraði sem þekkist í smásölurekstri. Ljóst er að allt þarf að ganga upp til þess að þetta sé hægt. Starfsfólkið, afgreiðslukerfin, bílastæði og umferðarflæði. Þrátt fyrir lengdan opnunartíma á undanförnum árum kjósa margir að gera áfengisinnkaup sín milli klukkan fimm og sjö á föstudögum.
Mikilvægt er fyrir einkasöluna að þjóna viðskiptavinum sínum sem allra best þannig að þeir sætti sig við það kerfi sem stjórnvöld hafa ákveðið að hafa á áfengissölunni.
Samfélagslega ábyrgir starfshættir
Viðskiptavinir ÁTVR eiga ekki val um við hvaða aðila þeir vilja eiga viðskipti. Ef þeir eru óánægðir með ÁTVR geta þeir ekki farið annað. Mikilvægt er fyrir einkasöluna að þjóna viðskiptavinum sínum sem allra best þannig að þeir sætti sig við það kerfi sem stjórnvöld hafa ákveðið að hafa á áfengissölunni. Óhætt er að segja að það hafi tekist ágætlega. Á síðasta ári var ÁTVR efst í Íslensku ánægjuvoginni í flokki fyrirtækja í smásölu. ÁTVR getur með stolti sagt að viðskiptavinir ÁTVR séu þeir ánægðustu á Íslandi. Þetta er frábær árangur og sýnir að verslunin býr að einstökum mannauði sem leggur sig fram um að þjóna viðskiptavinum sem allra best.
ÁTVR var valin fyrirmyndarstofnun af SFR á árinu en viðurkenningin sýnir að starfsfólki líður vel í starfi og er ánægt með vinnustaðinn sinn. Þessi viðurkenning skiptir ÁTVR miklu máli því flest starfsfólk ÁTVR eða um 450 manns er í SFR. Í lok árs 2018 hlaut ÁTVR jafnlaunavottun þannig að hjá ÁTVR er ekki gert upp á milli kynja þegar kemur að ákvörðunum um laun.
Hjá ÁTVR er lögð áhersla á heilbrigðan lífsstíl. Boðið er upp á holla og næringarríka rétti í mötuneyti á Stuðlahálsi. Starfsfólk getur nýtt sér ókeypis heilsufarsmælingar hjá hjúkrunarfræðingi á hverju ári og þannig fylgst með heilsufari sínu. Boðið er upp á líkamsræktarstyrki og þeir sem vilja geta undirritað samning um að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta til og frá vinnu. Starfsfólk hefur líka staðið sig ágætlega í ýmsum keppnum sem byggjast á hreyfingu og meðal annars fengið viðurkenningar fyrir verkefnin Hjólað í vinnuna og Lífshlaupið.
ÁTVR ástundar samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðlar að aukinni sjálfbærni í starfsemi fyrirtækisins til lengri og skemmri tíma. Til að ná markmiðum um sjálfbærni verður unnið með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og loftslagsmarkmið Festu og Reykjavíkurborgar til 2030. Einnig verður Grænum skrefum í ríkisrekstri fylgt eftir sem og vistvænum innkaupum.
Þakkir til starfsfólks
Ég vil að lokum þakka starfsfólki ÁTVR samstarfið á árinu.
Ívar J. Arndal
forstjóri
Heildarstefna
Áherslur
Ábyrgir starfshættir
- Við viljum að sátt ríki í samfélaginu um núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis
- Við förum vel með verðmæti og notum auðlindir af ábyrgð
- Við leitum stöðugt nýrra leiða til þess að bæta reksturinn
- Við gætum jafnræðis við val og dreifingu á vöru
- Við viljum draga úr áfengisneyslu ungs fólks með því að tryggja að aldursmörk til áfengiskaupa séu virt
Ánægt starfsfólk
- Við viljum að vinnustaðurinn sé öruggur, heilsueflandi og skemmtilegur þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð
- Við viljum að starfsfólk njóti virðingar og gerum því kleift að sinna starfi sínu á sem bestan hátt
- Við leggjum áherslu á að starfsfólk fái tækifæri til að auka þekkingu sína og hæfni
- Við líðum ekki mismunun á vinnustaðnum og tryggjum að starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf
Ánægðir viðskiptavinir
- Við setjum viðskiptavininn í öndvegi og tökum mið af væntingum hans
- Við veitum þjónustu sem byggir á lipurð, fagmennsku og hlutleysi
- Við leggjum áherslu á fræðslu til viðskiptavina án þess að hvetja til meiri neyslu
Ábyrgt vöruval
- Við leitumst við að bjóða eingöngu vörur sem framleiddar eru samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum
- Við viljum að vöruvalið sé áhugavert og byggi á fjölbreytileika og gæðum
- Við viljum tryggja öryggi og gæði vara
- Við viljum vernda ungt fólk með því að hindra framboð á óæskilegum vörum
Virðing fyrir umhverfinu
- Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni
- Við drögum úr úrgangi með markvissum hætti og bjóðum viðskiptavinum upp á vistvænar lausnir
Framkvæmdaráð
Ívar J. Arndal
Forstjóri
Sigrún Ósk Sigurðardóttir
Aðstoðarforstjóri
Sveinn Víkingur Árnason
Framkvæmdastjóri
Skipulag og stjórnun
Skipuritið sýnir starfsemi fyrirtækisins á myndrænan hátt. Meginsviðin eru tvö, vörudreifing og heildsala tóbaks og sölu- og þjónustusvið. Stoðsviðin eru fjögur: fjárhagssvið, mannauðs- og starfsþróunarsvið, rekstrarsvið og vörusvið.
Nýtt skipurit tók gildi 1. ágúst, breytingin fólst í því að innkaup fluttust frá sölu- og þjónustusviði til vörudreifingar og heildsölu tóbaks. Markmið breytingarinnar var að tengja vöruflæði, innkaup og dreifingu. Einnig breyttist heiti á mannauðssviði í mannauðs- og starfsþróunarsvið. Forstjóri og framkvæmdastjórar mynda framkvæmdaráð sem fundar að jafnaði vikulega. Mánaðarlega fundar yfirstjórn með mannauðsstjóra, aðalbókara og aðstoðarframkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs til að fara yfir stöðu verkefna og kynna það sem fram undan er. Til að tryggja upplýsingaflæði eru reglulega haldnir fundir með starfsfólki í höfuðstöðvum og dreifingarmiðstöð og verslunarstjórum stærri Vínbúða. Auk þess halda verslunarstjórar stærri Vínbúða reglulega fundi með sínu starfsfólki.
Verkefna- og umbótahópar eru hluti af skipulaginu. Markmið þeirra er að vinna að skilgreindum verkefnum með þátttöku starfsfólks frá ólíkum starfsstöðvum. Á árinu störfuðu sex verkefnahópar og einn umbótahópur með þátttöku um 32 starfsmanna. Í tengslum við vinnu hópanna voru haldnar vinnustofur með þátttöku starfsfólks frá mismunandi starfsstöðvum til að fá fram skoðanir starfsfólks á þeim verkefnum sem unnið er að hverju sinni.
Ársskýrsla í samræmi við GRI
Þessi ársskýrsla gildir fyrir almanaksárið 2018
og nær yfir alla starfsemi ÁTVR, sem er eingöngu á Íslandi.
Ársskýrslan nær yfir alla starfsemi ÁTVR, sem er eingöngu á Íslandi, og gildir fyrir almanaksárið 2018. Ísland er skilgreint sem nærsamfélag og eru allir stjórnendur íslenskir og búsettir á landinu.
Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI) Standards, þar sem markmiðið er að skrá og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengdar eru samfélagslegri ábyrgð. Síðastliðin ár var GRI G4-staðlinum fylgt. Samfélagsskýrslan er ekki vottuð af ytri aðila en ársreikningur er gefin út af Ríkisendurskoðun.
Ársskýrslan er eingöngu á rafrænu formi, en hægt er að prenta út einstaka hluta hennar eða skýrsluna í heild.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir 39 mælikvörðum í þrem flokkum sjálfbærni. Hægt er að nálgast heildaryfirlit og mælikvarða í GRI hluta skýrslunnar (hér) en jafnframt er gerð grein fyrir mælikvörðum í texta þar sem það á við.
ÁTVR er meðlimur í Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð og tekur virkan þátt í starfsemi félagsins. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tóku gildi í ársbyrjun 2016. ÁTVR hefur innleitt þau inn í ferla fyrirtækisins. Heimsmarkmiðin eru víðtækustu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um og stefna að því að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030. Gerð er grein fyrir einstökum áherslum tengdum heimsmarkmiðunum þar sem það á við og í sérstökum hluta skýrslunnar er að finna heildaryfirlit.
Hagsmunaaðilar
Stefna ÁTVR er að vera í hópi fremstu þjónustufyrirtækja
landsins og þekkt fyrir samfélagslega ábyrgð.
Við mat á samfélagslegri ábyrgð hefur hagsmunaaðilum verið skipt í fimm flokka: Viðskiptavinir, mannauður, samfélagið, eigandinn og birgjar. Gerð er grein fyrir áherslum gagnvart einstökum hagsmunaaðilum en allar miða þær að því að fylgja þeim áherslum sem koma fram í heildarstefnunni.
SJÁLFBÆRNISTJÓRNUN
Markmið og mælikvarðar
Sett eru mælanleg markmið fyrir flesta þætti í rekstri og niðurstöður kynntar mánaðarlega í skorkortum fyrir allar Vínbúðir, skrifstofu og dreifingarmiðstöð. Auk þess eru sett markmið fyrir fyrirtækið í heild. Öll skorkort eru aðgengileg starfsfólki á sérstöku vefsvæði auk annarra gagnlegra upplýsinga sem snúa að rekstri. Stöðugt er unnið að því að þróa upplýsingar og gögn sem eru ætlaðar stjórnendum til að auðvelda ákvarðanir og auka yfirsýn á innkaupum og dreifingu. Aðgerðaáætlun er unnin út frá stefnu og áherslum til þriggja ára í senn, nú er unnið með tímabilið 2018-2020. Út frá þeirri áætlun er unnin ársáætlun með helstu verkefnum og ábyrgðaraðilum.
Sjálfbærnistjórnun - tafla
Í töflunni má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkað eftir hagsmunaaðilum með tilvísun í GRI mælikvarða og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Heimsmarkmiðin eru 17 og í þeim felst framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar til ársins 2030. Einnig er í töflunni tilvísun í siðareglur alþjóðasamtakanna Amfori. Samtökin eru leiðandi í heimi viðskipta þar sem markmiðið er að tryggja að öll viðskipti skapi félagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning fyrir alla. Áfengiseinkasölur á Norðurlöndunum hafa það markmið að tryggja að allar söluvörur séu framleiddar í samræmi við siðareglur. Einkasölurnar hafa á undanförnum árum verið í nánu samstarfi við Amfori til að reyna eftir fremsta megni að uppfylla það markmið.
Sjálfbærnitaflan inniheldur mikilvægustu efnisþætti í starfsemi ÁTVR, sem hafa mest áhrif á sjálfbærni. Niðurstöður byggja á stefnumótun, lífsferilsgreiningum og áhrifum á þrjár stoðir sjálfbærni; efnahag, samfélag og umhverfi. Reglulega eru efnisþættir endurskoðaðir í mikilvægisgreiningu. Engin breyting var á efnisþáttum frá síðasta ári.
Ánægja viðskiptavina
Það er stefna Vínbúðanna að vera eitt af fremstu þjónustufyrirtækjum landsins. Við veitum þjónustu sem byggir á lipurð, fagmennsku og hlutleysi. Við leggjum áherslu á fræðslu til viðskiptavina án þess að hvetja til meiri neyslu. Við viljum að vöruvalið sé áhugavert og byggi á fjölbreytileika og gæðum og taki mið af væntingum viðskiptavina.
Eitt fremsta þjónustufyrirtæki landsins
Íslenska ánægjuvogin er einn mikilvægasti mælikvarðinn til að sjá hvort fyrirtækið nái markmiði sínu að vera eitt af fremstu þjónustufyrirtækjum landsins. Sérstaklega er horft til fyrirtækja á smásölumarkaði þegar kemur að samanburðinum. Vínbúðin var með hæstu einkunn í flokki fyrirtækja á smásölumarkaði og fjórðu hæstu einkunn allra fyrirtækja, fékk 73,6 stig af 100 mögulegum. Alls voru birtar niðurstöður fyrir 29 fyrirtæki í 9 atvinnugreinum. Líkt og undanfarin fimm ár er viðurkenning einungis veitt þeim fyrirtækjum sem eru tölfræðilega marktækt með hæstu einkunnina í viðkomandi atvinnugrein, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu að jafnaði ánægðari en viðskiptavinir fyrirtækisins með næsthæstu einkunnina. Annað árið í röð var Vínbúðin með marktækt hæstu einkunn á smásölumarkaði og er því hægt að segja að Vínbúðin sé með ánægðustu viðskiptavini á smásölumarkaði.
Vínbúðin státar af ánægðustu viðskiptavinunum í flokki fyrirtækja á smásölumarkaði í Íslensku ánægjuvoginni.
Árlegar þjónustukannanir mæla ánægju viðskiptavina í hverri Vínbúð fyrir sig. Viðskiptavinir gefa einkunn um þjónustu, vöruval, viðmót og þekkingu starfsfólks. Í heildina eru viðskiptavinir ánægðir með þjónustuna og þótt einkunnin hafi lækkað lítillega á milli ára er árangurinn engu að síður mjög góður. Almennt er meiri ánægja með þjónustu minni Vínbúða sem allar eru á landsbyggðinni. Til viðbótar er árlega gerð könnun þar sem spurt er um almenna þætti auk ánægju með þjónustu s.s. viðmót starfsfólks, vöruval, opnunartíma og staðsetningu Vínbúða. Þar kemur fram að 83% aðspurðra eru ánægð með þjónustuna og 93% telja viðmót starfsfólks gott. Niðurstöður kannana eru rýndar og nýttar til umbóta.
Ánægja með þjónustu vínbúðanna
2018 | 2017 | |
---|---|---|
Stærri Vínbúðir | 4,25 | 4,33 |
Minni Vínbúðir | 4,46 | 4,48 |
Kvarðinn er 1-5 þar sem 1 er lægst og 5 hæst.
Á árinu komu rétt tæplega 5 milljónir viðskiptavina í Vínbúðirnar. Yfir helmingur viðskiptavina kemur í Vínbúðirnar á föstudögum og laugardögum. Föstudagar eru stærstir en að jafnaði koma um 29 þúsund viðskiptavinir á hefðbundnum föstudegi.
Flestir viðskiptavinir heimsóttu Vínbúðirnar miðvikudaginn 28. mars, þ.e. daginn fyrir skírdag, eða tæplega 41 þúsund. Í ár bar 23. og 30. desember upp á sunnudag og því lokað í Vínbúðunum lögum samkvæmt. Þessir dagar hafa að jafnaði verið annasömustu dagar ársins. Álagið dreifðist því nokkuð á nærliggjandi daga, en þó stendur upp úr að 31. desember komu tæplega 30 þúsund viðskiptavinir og miðað við opnunartíma er sá dagur stærsti dagur ársins. Alls fengu um 5.000 þúsund viðskiptavinir þjónustu á hverri klukkustund þann dag.
runnu í Pokasjóð
vinbudin.is
Til að þjónusta viðskiptavini sem best er stöðugt unnið að endurbótum á vefsíðunni, vinbudin.is. Á árinu var ferli sérpantana endurhannað þannig að auðveldara sé að nálgast vörur sem ekki eru í vöruvali Vínbúðanna. Vefurinn er vel sóttur og fjölgar heimsóknum stöðugt á milli ára. Á haustmánuðum var viðskiptavinum sem heimsóttu vefinn boðið að taka þátt í könnun. Markmiðið var að kanna skoðanir þeirra á því hvað betur mætti fara og hvað vel væri gert á vinbudin.is. Þátttakan var góð og kom niðurstaðan ánægjulega á óvart en 90% þeirra sem tóku þátt í könnuninni voru ánægðir með vefinn. Auk þess kom fram fjöldi ábendinga sem gagnast við frekari þróun á vefsíðunni.
Netspjall er þjónustuleið sem viðskiptavinir hafa nýtt sér í auknum mæli og ríkir almenn ánægja meðal viðskiptavina með þá þjónustu sem þar er veitt.
Fræðsla
Þemadagar eru kærkomið tækifæri til að fræða viðskiptavini. Í apríl og maí var fókusinn á minna þekktar hvítar þrúgur. Í september og október voru hins vegar bjór og matur í aðalhlutverki. Birtar voru fróðlegar greinar en einnig uppskriftir að ljúffengum réttum sem henta sérlega vel með hvoru þema fyrir sig. Allar greinar og uppskriftir sem birtar hafa verið í tengslum við þemadaga eru aðgengilegar á vinbudin.is.
Vínbúðir ársins
VÍNBÚÐ ÁRSINS Í FLOKKI STÆRRI VÍNBÚÐA 2019
VÍNBÚÐIR ÁRSINS Í FLOKKI MINNI VÍNBÚÐA 2019
Til að meta árangur í rekstri Vínbúðanna er þeim öllum sett mælanleg markmið. Markmiðin eru meðal annars um skilríkjaeftirlit, þjónustueinkunn, viðmót starfsfólks, rýrnun og gæðaeftirlit. Vínbúðunum er skipt í flokka, það er í stærri og minni, eftir fjölda tegunda í vöruvali. Í flokki stærri Vínbúða eru alls 17 Vínbúðir, en 34 í flokki minni Vínbúða. Mánaðarlega eru niðurstöður mælinganna birtar og hafa allar Vínbúðir aðgang að niðurstöðunni bæði fyrir sína búð og fyrir aðrar Vínbúðir.
Árlega er starfsfólki þeirra Vínbúða sem ná bestum árangri veitt viðurkenning. Að þessu sinni voru Vínbúðir ársins, Vínbúðin Reykjanesbæ í flokki stærri Vínbúða og Vínbúðirnar Akranesi og Hellu í flokki minni Vínbúða. Auk þess fengu Vínbúðirnar Austurstræti, Skeifunni og Hólmavík sérstaka viðurkenningu.
Ábyrgt vöruval
Norrænt samstarf á sviði samfélagslegrar ábyrgðar
Í samfélaginu eru í auknum mæli gerðar kröfur til fyrirtækja um samfélagsábyrgð og að þau tryggi að vörur sem þau selja séu framleiddar með siðrænum hætti. Það sama má segja um viðskiptavini Vínbúðanna. Allt frá árinu 2009 hafa norrænu áfengiseinkasölurnar, Alko í Finnlandi, Systembolaget í Svíþjóð, Vinmonopolet í Noregi, Rúsdrekkasøla Landsins í Færeyjum og ÁTVR verið í samstarfi sem snýr að siðferðilegum grundvallarreglum í aðfangakeðjunni. Sameiginlegt markmið er að tryggja að söluvörur fyrirtækjanna séu framleiddar samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og siðareglum. Allar einkasölurnar hafa gerst meðlimir í alþjóðasamtökunum Amfori BSCI en markmið þeirra er að tryggja aukna samfélagsábyrgð í aðfangakeðjunni. Á undanförnum árum hafa helstu vínframleiðslulönd heimsins verið heimsótt. Þar hafa verið haldnir kynningarfundir með framleiðendum, samtökum framleiðenda, fulltrúum stjórnvalda og öðrum hagsmunaaðilum þar sem samstarfið er kynnt og þær siðareglur sem lagðar eru til grundvallar, en þær byggja á siðareglum Amfori BSCI. Lögð er áhersla á að reglunum sé ætlað að vera grunnur til að leiðrétta hegðun ef úrbóta er þörf en ekki útiloka vörur nema önnur úrræði hafi verið fullreynd. Árlega standa Alko, Systembolaget og Vinmonopolet fyrir fjölda úttekta á vegum alþjóðlegra úttektaraðila þar sem framleiðendur eru metnir á grundvelli siðareglnanna og gerð er áætlun til úrbóta ef ástæða er til. Niðurstöðurnar eru birtar í gagnagrunni Amfori fyrir meðlimi samtakanna.
Vöruval
Vöruval Vínbúðanna byggir á reglugerð um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi (nr. 1106/2015). Vöruvalið ræðst að mestu af eftirspurn viðskiptavina. Í grunninn eru þrír megin söluflokkar, kjarni, reynsla og sérflokkur, en auk þeirra eru smærri tímabundnir flokkar tengdir ákveðnum tímabilum s.s. þorra, sumri og jólum. Kjarni er megin söluflokkurinn og myndar grunn að vöruvali hverrar Vínbúðar. Vöruval í kjarna er endurmetið þrisvar sinnum á ári. Reynsluflokkur er ætlaður nýjum vörum. Ef reynsluvara nær tilteknum viðmiðum í sölu færist hún í kjarna og er um leið fáanleg í fleiri Vínbúðum. Fjórar Vínbúðir selja allan reynsluflokkinn, Heiðrún, Álfrún í Hafnarfirði, Vínbúðin Kringlunni og Vínbúðin Skútuvogi. Á árinu var aukin dreifing á reynsluvörum þannig að 100 söluhæstu vörunum í reynsluflokki er dreift í þrjár Vínbúðir til viðbótar þeim fjórum sem hafa allt úrvalið. Vínbúðirnar eru Dalvegur, Skeifan og Akureyri.
með vöruvalið
Sérflokki er ætlað að mæta óskum viðskiptavina og styðja við stefnu fyrirtækisins um að bjóða vöruval sem byggir á fjölbreytni og gæðum og um leið að tryggja skilgreint lágmarks vöruval í hverjum vínbúðarflokki.
Vínbúðunum er skipt í flokka eftir vöruvali. Í upphafi árs voru flokkarnir sex þ.e. K1, K2, K3, K6, K8 og K9. Með reglugerðarbreytingu í apríl (395/2018) var bætt við fjórum flokkum þ.e. K0, K4, K5 og K7. Vöruval Vínbúðanna eykst eftir því sem flokkurinn hefur hærra númer. Engin Vínbúð er í K0 flokknum. Talsverðar breytingar voru gerðar á flokkun Vínbúðanna á árinu. 12 Vínbúðir voru fluttar upp um einn flokk og fjórar Vínbúðir voru fluttar upp um tvo flokka. Vínbúðir í flokki K1-K5 eru allar á landsbyggðinni en K6 Vínbúðirnar og stærri eru á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, Selfossi og í Reykjanesbæ.
Í könnun voru viðskiptavinir spurðir um ánægju eða óánægju með vöruval í Vínbúðunum á heildina litið. Niðurstaðan var að 81% viðskiptavina eru mjög eða frekar ánægðir með vöruvalið á meðan um 6% eru frekar eða mjög óánægðir, aðrir eru hlutlausir. Til viðbótar eru viðskiptavinir spurðir í þjónustukönnun um vöruval í þeirri Vínbúð sem þeir versla oftast eftir flokkum þ.e. léttvín, bjór og sterkt áfengi. Niðurstöðurnar eru rýndar með það fyrir augum að koma enn betur til móts við þarfir viðskiptavina en um leið þarf að taka tillit til stærðar og staðsetningar Vínbúðanna og þeirra reglna sem í gildi eru.
Sérstakar áherslur hafa verið í vöruvali einstakra Vínbúða. Bjór er í forgangi í vöruvali Vínbúðarinnar Skútuvogi en þar fást að jafnaði allar bjórtegundir sem eru í vöruvali. Léttvín í dýrari verðflokkum hefur verið í dreifingu í Kringlunni en til viðbótar hefur vöruvalið í Heiðrúnu verið aukið í þessum flokki. Sterkt áfengi er hins vegar í mestu úrvali í Vínbúðinni Kringlunni.
Þegar litið er á markaðshlutdeild Vínbúðanna í heildarsölunni þá hafa K1, K2, K3, K4 og K5 Vínbúðir um 21% markaðshlutdeild en ef litið er á fjöldann í hlutfalli við heildarfjölda Vínbúða þá er hlutfallið 67%.
Gæðaeftirlit vöru
Allar vörur sem samþykktar eru í sölu eru skoðaðar og gengið úr skugga um að þær uppfylli öll formskilyrði laga og reglna þar með talið reglur um merkingu matvæla. Ef ekki eru gerðar athugasemdir fara allar vörur í skynmat til að tryggja gæði þeirra.
Haustið 2016 byrjaði ÁTVR að fylgjast reglulega með styrkleika alkóhóls í söluvörum Vínbúðanna. Í október 2017 var tekinn í notkun vínskanni, sérhæft mælitæki fyrir vín, sem gerir kleift að fylgjast með alkóhóli, sykri, súlfíti, sýrum og fleiri þáttum sem gagnast við gæðaeftirlit ásamt því að gefa kost á auknum upplýsingum til viðskiptavina, m.a. magn sykurs í víni.
Á árinu 2018 voru mældar um það bil 2.100 tegundir. Flestar mælingar staðfesta réttar merkingar, en í 37 tilvikum fundust frávik frá uppgefnu alkóhólmagni. Brugðist er við ef frávik eru veruleg.
Á árinu 2018 voru 636 nýjar vörur teknar í reynslusölu.
Mannauður - ánægt starfsfólk
Við viljum að vinnustaðurinn sé öruggur og heilsueflandi og að samskipti einkennist af gildunum lipurð, þekking og ábyrgð. Við viljum að starfsfólk njóti virðingar og gerum því kleift að sinna starfi sínu á sem bestan hátt. Við líðum ekki mismunun á vinnustaðnum og tryggjum að starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Siðareglum er ætlað að bæta starfsanda og ímynd fyrirtækisins. Reglurnar skerpa einnig á ábyrgð starfsfólks og er ætlað að undirstrika mikilvægi þess að allir hagsmunaaðilar njóti sanngirni og jafnræðis.
Starfsánægja
Til að leggja mat á starfsánægju framkvæmir Gallup árlega viðamikla vinnustaðagreiningu. Spurningarnar byggja á áralöngum rannsóknum Gallup og snúa að upplifun starfsfólks á vinnustaðnum. Helgun starfsfólks er einn mikilvægasti mælikvarðinn en helgun er mæld með þrettán spurningum, svokölluðum kjarnaspurningum. Auk spurningar um heildaránægju er m.a. kannað hvort starfsfólk fái stuðning og hvatningu, hvort það sé metið að verðleikum, geti sagt álit sitt og fái hrós og endurgjöf. Meðaltal kjarnaspurninganna fór úr 4,34 í 4,40 á milli ára og er það hæsta einkunn sem Vínbúðirnar hafa fengið á þeim ellefu árum sem könnunin hefur verið framkvæmd.
Helgun - niðurstaða kjarnaspurninga
KVARÐINN 1-5
Í könnun SFR um stofnun ársins náði ÁTVR þriðja sæti í flokki stórra stofnana og er þar með ein af Fyrirmyndarstofnunum ársins.
Niðurstöðurnar eru rýndar með það að markmiði að viðhalda því sem vel er gert og gera betur þar sem tækifæri bjóðast. Liður í því er að kynna niðurstöðuna fyrir starfsfólki. Á kynningunum er farið yfir niðurstöðurnar og samanburð við aðrar starfsstöðvar og fyrirtækið í heild, auk samanburðar við önnur fyrirtæki í gagnabanka Gallup. Yfirmannamat er framkvæmt samhliða vinnustaðagreiningu og fá allir sem hafa fimm eða fleiri undirmenn mat og sérstaka kynningu. Til viðbótar gefst starfsfólki kostur á að meta gæði innri þjónustu megin- og stoðsviða.
Stofnun ársins, könnun SFR, er einnig mikilvægur mælikvarði á starfsánægju. Auk þess að fá niðurstöður fyrir fjölmarga þætti í starfsumhverfinu gefur könnunin samanburð við aðrar stofnanir. ÁTVR hækkaði á milli ára um eitt sæti og var nú í þriðja sæti af stórum stofnunum með sömu heildareinkunn og árið áður, 4,32. Til samanburðar var meðaltal heildareinkunnar stærri stofnana 3,87.
Heilsueflandi vinnustaður
Starfsfólk er hvatt til heilsueflingar með margvíslegum hætti. Boðið er upp á styrki, fræðslu og hvatt til þátttöku í vinnustaðakeppnunum, Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna. Samgöngusamningar hafa notið mikilla vinsælda hjá starfsfólki. Tímabil samgöngusamninga eru tvö, sumar og vetur. Að jafnaði eru fleiri sem óska eftir samningi á sumrin. Þeir sem gera samgöngusamning skuldbinda sig til að ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti, að jafnaði þrisvar í viku eða oftar. Alls voru 166 starfsmenn með sumarsamning en 151 voru með vetrarsamning. Árlega er gerð könnun á meðal starfsfólks þar sem spurt er um ýmsa þætti tengda samgöngusamningum og ferðamáta. Mikill meirihluti eða 79% af þeim sem tóku afstöðu er ánægðir með samninginn. Tæplega 90% af þeim sem eru með samning telja að hann, ásamt hreyfingu í kjölfarið, hafi haft jákvæð áhrif á heilsu og líðan.
Lífshlaupið og Hjólað í vinnuna eru skemmtilegar keppnir sem efla liðsheild og hvetja fólk til hreyfingar. Þátttaka var góð en alls voru 39 lið skráð til leiks í Lífshlaupinu með þátttöku 239 starfsmanna. Veitt eru verðlaun fyrir fjölda daga og fjölda mínútna. Vínbúðin varð í fyrsta sæti í báðum flokkum. Minni þátttaka var í Hjólað í vinnuna en alls tóku 56 starfsmenn þátt í þeirri keppni. Árangurinn var engu að síður frábær og var lið Vínbúðanna í þriðja sæti í sínum stærðarflokki.
Boðið var upp á tvær heilsufarsmælingar á árinu. Fyrri mælingin var framkvæmd í mars og var með sama hætti og undanfarin ár. Mældir voru þættir eins og kólesteról, blóðsykur, blóðþrýstingur, fituprósenta og BMI-stuðull. Á minni starfsstöðvum á landsbyggðinni er starfsfólki boðið upp á að leita til næstu heilsugæslustöðvar til að fá sambærilega mælingu. Í október var boðið upp á heilsufarsskoðun með nýju sniði þar sem megináherslan var á viðtal m.a. með áherslu á álag og streitu auk mælinga á blóðþrýstingi, kólesteróli og blóðsykri.
Fræðsla um heilsutengda þætti, bæði líkamlega og andlega, er einn þáttur til að skapa heilsueflandi vinnustað. Í ár var m.a. boðið upp á fyrirlestur um streitu og kulnun.
Kjarasamningar og jafnlaunavottun
Starfsfólk fær greidd laun í samræmi við kjarasamninga fyrir utan forstjóra. Fjármála- og efnahagsráðherra gerir kjarasamning fyrir hönd ríkisins við viðkomandi stéttarfélög, auk þess sem ÁTVR hefur gert stofnanasamning um nánari útfærslur kjarasamnings við annars vegar SFR og hins vegar einstök félög háskólamenntaðra starfsmanna.
ÁTVR hefur í mörg ár haft jafnrétti að leiðarljósi og var með fyrstu fyrirtækjum til að fá gullmerki jafnlaunaúttektar PwC árið 2013 og aftur árið 2016. Í upphafi ársins var tekin ákvörðun um að hefjast handa við innleiðingu á jafnlaunastaðli ÍST 85:2012, innleiðingunni lauk með vottun í nóvember.
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Þetta er því mikilvæg staðfesting á því að verklag við ákvörðun í launamálum hjá ÁTVR byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
ÁTVR skrifaði undir jafnréttissáttmála UN Women og uppfyllir öll sjö viðmiðin sem sáttmálinn byggir á.
Upplýsingagjöf
Til að gera starfsfólki kleift að sinna starfi sínu sem best er mikil áhersla lögð á að veita sem bestar upplýsingar um allt það sem snýr að rekstri. Samskiptavefurinn Workplace er öflugur miðill til að miðla upplýsingum hvort sem um er að ræða mál sem snúa að rekstri eða félagslegum þáttum. Reglulegir starfsmannafundir eru haldnir á öllum stærri starfsstöðvum. Fréttabréf starfsfólks, Flöskuskeytið, var gefið út 4 sinnum á árinu.
Mikil áhersla er lögð á að veita sem bestar upplýsingar til starfsfólks.
Slysaskráning og fjarvistir vegna veikinda
Markmiðið er að stefna að slysalausum vinnustað. Vinnuslys voru tvö á árinu í samanburði við sjö árið 2017.
Fjarvistir vegna veikinda og veikinda barna sem hlutfall af unnum vinnustundum voru 2,4%. Í heildina eru fjarvistir kvenna 2,6% og karla 2,2%.
Fastráðið
starfsfólk 239
í desember 2018
503 störfuðu
hjá ÁTVR í desember 2018
Starfsmannafjöldi og ársverk
Í árslok störfuðu samtals 239 fastráðnir starfsmenn hjá ÁTVR, 125 konur og 114 karlar. Í desember voru starfsmenn alls 499 bæði fastráðnir og tímavinnufólk, þar af voru 295 konur og 204 karlar. Tímavinnufólk er starfsfólk sem vinnur á álagstímum, seinni hluta vikunnar, í sumarafleysingum og um jól. Af þeim sem voru í vinnu í desember voru 48% í fullu starfi, 1% í hlutastarfi og 51% í tímavinnu.
Starfsmannavelta hjá fyrirtækinu í heild var 25%. Mesta starfsmannaveltan er hjá starfsfólki í tímavinnu, eða 32% en minnst hjá starfsfólki í fullu starfi, 17%. Í viðauka í lið 401-1 má sjá sundurliðun starfsmannaveltu eftir ráðningarformi, aldri og kyni.
Heildarfjöldi starfsmanna sem fengu greidd laun á árinu var 700. Umreiknað í ársverk voru þau 354 í samanburði við 334 árið áður. Í heildina hefur ársverkum því fjölgað um 6% á milli ára.
árið 2018
árið 2018
Námskeið og starfsþróun
Að veita framúrskarandi þjónustu krefst þekkingar. Mikil áhersla er lögð á að starfsfólk hugi að þekkingu sinni og er mest öll fræðsla á vegum Vínskóla Vínbúðanna. Tvisvar á ári er gefið út viðburðadagatal en þar er að finna yfirlit yfir alla fræðslu sem er í boði auk viðburða á vegum Starfsmannafélagsins og fræðslu tengda heilsu og vellíðan. Samanlagt voru námskeiðsstundir um 6.300 á árinu með megináherslu á vínfræðslu.
Alls starfa hjá fyrirtækinu 12 vínráðgjafar á mismunandi starfsstöðvum sem allir hafa lokið alþjóðlegu prófi (WSET). Í þjónustukönnun voru viðskiptavinir spurðir um afstöðu til þekkingar starfsfólks. 79% telja starfsfólk Vínbúðanna búa yfir mjög eða frekar mikilli þekkingu, en eingöngu 3% telja þekkinguna mjög eða frekar litla.
Samanlagt voru námskeiðsstundir um 6.300 með megináherslu á vínfræðslu.
Samfélagið - ábyrgir starfshættir
Við viljum vera fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar. Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni.
Viðurkenningar
ÁTVR var tilnefnt til loftslagsverðlauna Reykjavíkurborgar og Festu. Í umsögn dómnefndar segir að ÁTVR hafi unnið markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í eigin rekstri og mæla kolefnisspor á innfluttum vörum.
Sveitarfélagið Skagafjörður veitti Vínbúðinni Sauðárkróki umhverfisviðurkenningu fyrir breytingar á húsnæðinu og snyrtilegan frágang á bílaplani og lóð.
Vínbúðin Eiðistorgi fékk jafnréttisviðurkenningu Seltjarnarness fyrir markvissa vinnu fyrirtækisins í þágu jafnréttis á vinnustað.
Skilríkjaeftirlit
Skilríkjaeftirlit er einn af mikilvægustu þáttunum í samfélagslegri ábyrgð. Starfsfólk er þjálfað í að spyrja um aldur viðskiptavina sem virðast 24 ára eða yngri og ekki síst þeirra sem gætu verið undir 20 ára. Markmiðið er að tryggja að allir viðskiptavinir hafi náð 20 ára aldri. Til að efla starfsfólk í skilríkjaeftirliti eru framkvæmdar hulduheimsóknir sem fara þannig fram að 20–24 ára viðskiptavinir versla í Vínbúðunum og skila síðan niðurstöðu til rannsóknaraðila hvort þeir voru spurðir um skilríki eða ekki. Hulduheimsóknir eru framkvæmdar í öllum stærri Vínbúðum þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, í Reykjanesbæ og á Akureyri. Að meðaltali eru þrjár heimsóknir í mánuði í hverja Vínbúð. Árangurinn var góður, betri en undanfarin ár, eða 87% og rétt undir markmiði ársins sem var 88%.
Hulduheimsóknir
Umhverfismál
ÁTVR er eitt af 104 fyrirtækjum sem taka þátt í samstarfsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. ÁTVR hefur þess vegna sett sérloftslagsmarkmið til ársins 2030.
Í meginatriðum eru markmiðin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs, innleiða sjálfbærni í ferla fyrirtækisins, mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu fyrrnefndra þátta. Umhverfisstjórnun byggir m.a. á mælingum þar sem notast er við grænt skorkort og svokallaðan GRI staðal (Global Reporting Initiative) við skrásetningu margvíslegra aðgerða í þágu samfélagsins. Öll bein losun er kolefnisjöfnuð hjá Kolvið og flug kolefnisjafnað hjá Votlendissjóði.
Á línuritunum hér fyrir neðan eru loftslagsmarkmið ÁTVR til 2030 og er markmiðið að draga úr beinni losun um 40% m.v. 2016. Blái flöturinn er losun fólksbíla, gula eru losun vöruflutningabíla og svarta er losun sendibifreiða. Á neðra línuritinu er staðan frá 2016 og er fyrirtækið á góðri leið samkvæmt rauðu línunni.
Útblástur bifreiða til 2030
Bein losun til 2030
Innkaup, græn skref og endurvinnsla
Vistvæn innkaup (VINN) er samstarfsvettvangur opinberra aðila en markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænum innkaupum og þar með grænum ríkisrekstri. ÁTVR er þátttakandi og skilar inn tölum um grænt bókhald. Sett eru mælanleg markmið og reglulega fylgst með niðurstöðunni. Markvisst er unnið að því að auka hlut vistvænna vara á öllum starfsstöðvum.
ÁTVR heldur grænt bókhald og er jafnframt þátttakandi í Grænum skrefum í ríkisrekstri. Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum. Umhverfisstofnun veitir viðurkenningar eftir hvert skref, en alls eru þau fimm. Allar Vínbúðir auk höfuðstöðva og dreifingarmiðstöðvar hafa innleitt skrefin fimm.
Fjölmörg verkefni eru unnin á sviði umhverfismála. Með samstilltu átaki tókst að halda 92% endurvinnsluhlutfalli. Bylgjupappi og plast eru fyrirferðarmestu flokkarnir og þar minnkar úrgangurinn á milli ára. Stöðugt er unnið að því að minnka magn af blönduðum úrgangi sem ekki fer til endurvinnslu. Þar sem því verður við komið er viðskiptavinum gert kleift að nálgast pappakassa til að endurnýta.
samgöngusamning
Plastpokar og fjölnota pokar
Viðskiptavinum fjölgaði um 1,6% á árinu, voru alls tæplega 5 milljónir. ÁTVR hefur með markvissum hætti hvatt viðskiptavini til að draga úr notkun plastpoka með því að bjóða fjölbreytt úrval af fjölnota pokum á hagstæðu verði. Sala á fjölnota pokum jókst um tæplega 13% á árinu, alls voru seldir 47 þúsund pokar. ÁTVR hefur sett sér það markmið að verða plastpokalaus og einn liður í því var að hækka verðið á plastpokunum. Hækkunin er greidd í Pokasjóð en hann styrkir fjölmörg verkefni á sviði samfélagsmála. Sala plastpoka dróst saman um 7% á milli ára. Hlutfall þeirra viðskiptavina sem kaupa plastpoka hefur lækkað á undanförnum árum. Í ár keyptu um 29% viðskiptavina plastpoka sem gera um 1,5 milljón pokar. Í áratugi hefur ÁTVR gefið viðskiptavinum brúna flöskubréfpoka en frá og með 1. janúar var dreifingu bréfpokanna hætt. Markmiðið er að draga úr umhverfisáhrifum en gera má ráð fyrir að í flestum tilfellum endi flöskupokarnir sem rusl eða séu settir í endurvinnslutunnu þegar heim er komið.
2018 | 2017 | % breyting | |
Seldir lítrar | 21.985.478 | 21.866.826 | 0,5% |
Fjöldi viðskiptavina | 4.995.816 | 4.919.365 | 1,6% |
Seldir plastpokar | 1.465.779 | 1.576.774 | -7,0% |
Fjölnota burðarpokar | 46.666 | 41.359 | 12,8% |
Hlutfall viðskiptavina sem kaupa plastpoka | 29,3% | 32,1% | -8,5% |
CO2-ígildi (GHL)
Hjólavottaður vinnustaður
Hjólavottun vinnustaða er liður í að innleiða bætta hjólreiðamenningu og þar með draga úr umhverfisáhrifum. Vinnustaðir geta fengið viðurkenningu í þremur flokkum, þ.e. gull, silfur og brons, eftir því hve hjólreiðavænir þeir eru. Vínbúðin fékk gullvottun árið 2016 og var um leið fyrsti vinnustaðurinn á Íslandi til að fá slíka vottun. Vottunin var endurnýjuð á árinu. Samgöngusamningar og bætt aðstaða starfsfólks og viðskiptavina eru meðal aðgerða sem eru til þess fallnar að stuðla að bættri hjólreiðamenningu.
Matjurtagarður
Til að stuðla að sjálfbærni var ræktun matjurta á lóðinni á Stuðlahálsi haldið áfram. Garðurinn var stækkaður lítillega til að auka fjölbreytni í ræktun. Í garðinum voru ræktaðar ýmsar tegundir t.d. rabarbari, rifsber, kryddjurtir, kartöflur, grænkál og jarðarber. Uppskeran var nýtt í mötuneyti starfsfólks. Mikil ánægja er með uppskeruna og markmiðið er að halda áfram að rækta garðinn.
Eigandinn
Við viljum að sátt ríki í samfélaginu um núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis. Við leitum stöðugt nýrra leiða til þess að bæta reksturinn
Rekstur
Stór hluti tekna er með einum eða öðrum hætti hluti af tekjum ríkissjóðs þ.e. í formi áfengis- og tóbaksgjalda, virðisaukaskatts og arðs. Í ár nam þessi upphæð 25.144 m.kr., en var 25.122 m.kr. árið 2017. Alls nam arður ÁTVR til ríkissjóðs 1.000 m.kr.
HLUTUR RÍKISSJÓÐS AF BRÚTTÓSÖLU ÁTVR
2018 | 2017 | 2016 | |
---|---|---|---|
Magngjald tóbaks | 5.570.912 | 5.500.056 | 5.530.208 |
Arður til ríkissjóðs | 1.000.000 | 1.750.000 | 1.000.000 |
Áfengisgjald* | 13.451.593 | 12.889.298 | 11.950.683 |
Virðisaukaskattur | 5.121.018 | 4.982.341 | 4.866.843 |
25.143.523 | 25.121.695 | 23.347.734 |
1. janúar voru gerðar breytingar á áfengisgjöldum þannig að gjöld á alla flokka þ.e. bjór, léttvín og sterkt áfengi, hækkuðu um 2%. Á sama tíma voru breytingar á tóbaksgjaldi þannig að gjald á sígarettur (vindlinga) hækkaði um 2% en tóbaksgjald á neftóbak, vindla og annað tóbak hækkaði um 2,1%
Hagnaður og sölutölur
Hagnaður ÁTVR var 1.111 m.kr. í samanburði við 1.367 m.kr. árið 2017. Rekstrartekjur ársins voru 35.291 m.kr. Rekstrargjöld námu 34.174 m.kr. Þar af var vörunotkun 29.824 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.354 m.kr. eða 3,8% miðað við 4,5% á fyrra ári. Arðsemi eigin fjár á árinu var 25%.
Sala áfengis
Tekjur af sölu áfengis voru 25.756 m.kr. án vsk. og hækkuðu um 3,2% á milli ára. Alls voru seldir 22 milljónir lítra af áfengi. Sala ársins var 0,5% meiri í lítrum í samanburði við fyrra ár. Sala á sterku áfengi (>22% alk.) jókst um 20% en sala á léttvíni (<=22% alk.) dróst saman um 3,3%. Sala á bjór jókst um 0,4%.
Sala tóbaks
Tekjur af sölu tóbaks jukust um 2% á milli áranna 2017 og 2018 voru 9.442 m.kr. án vsk. Tóbakssala dróst mest saman í reyktóbaki um 10%, vindlum um 7%, sígarettum (vindlingum) um 3% en sala neftóbaks jókst um 18,7%.
Framkvæmdir
Í árslok 2018 rak ÁTVR 51 Vínbúð auk vefbúðar, þar af eru 14 á höfuðborgarsvæðinu.
Vínbúðin Höfn í Hornafirði var endurnýjuð og stækkuð. Unnið var að endurbótum í Vínbúðunum Flúðum, Sauðárkróki og Hvolsvelli. Vínbúðin Ísafirði flutti í upphafi árs í stærra húsnæði og er með aukið vöruval á boðstólum. Vínbúðin Skútuvogi var stækkuð og fór í gegnum gagngerar endurbætur. Kælir var stækkaður verulega og úrval bjórs aukið. Unnið var að stækkun dreifingarmiðstöðvar og í tengslum við það var unnið að lóðarframkvæmdum að Stuðlahálsi.
allt land
höfuðborgarsvæðinu
Dreifing og bifreiðar
Með markvissri vörustjórnun er leitað leiða til að koma vörum til Vínbúða með sem skilvirkustum hætti um leið og hugað er að því að lágmarka umhverfisáhrif flutninganna. ÁTVR dreifir vörum með eigin bifreiðum á höfuðborgarsvæðinu, til Akraness, Borgarness, Reykjanesbæjar, Grindavíkur og á Suðurland allt til Hvolsvallar. Aðrir flutningar er boðnir út.
Á árinu var keyptur einn rafmagns fólksbíll og til viðbótar var skipt úr tveimur dísil fólksbílum fyrir bíla sem ganga bæði fyrir bensíni og rafmagni. Tilgangurinn er að minnka umhverfisáhrif af starfseminni. Settar voru upp hleðslustöðvar á Stuðlahálsi sem starfsfólk hefur einnig aðgang að. Einnig er vinna í gangi við uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir starfsfólk og viðskiptavini við Vínbúðina Heiðrúnu.
Birgjar
Við gætum jafnræðis við val og dreifingu á vöru. Lögð er áhersla á að upplýsingagjöf til birgja sé sem best. Birgjar hafa aðgang að sérstökum þjónustuvef sem veitir þeim aðgang að upplýsingum sem þá varða.
Stefna og framkvæmd ÁTVR gagnvart birgjum
Allir sem hafa leyfi til innflutnings á áfengi geta sótt um vörur í reynslusölu. Áður en viðskipti geta hafist þarf birgir að undirrita stofnsamning um vörukaup áfengis. Samningurinn er heildarsamningur og tekur til allra vörukaupa ÁTVR frá birgi og veitir einnig aðgang að þjónustuvef. Jafnframt kveður samningurinn á um réttarstöðu aðila á grundvelli reglugerðar um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi (nr. 1106/2015).
Samskipti við birgja
Á birgjavef eru margvíslegar upplýsingar ætlaðar birgjum. Stöðugt er unnið að endurbótum á framsetningu og uppsetningu á vefnum, m.a. er nú auðveldara fyrir birgja að koma vörum sem ekki eru í vöruvali Vínbúðanna í sölu í vefbúð. Markmiðið er að auka þjónustu við viðskiptavini en jafnframt að auðvelda birgjum þegar viðskiptavinur vill sérpanta vöru. Á vefnum hafa birgjar yfirsýn yfir stöðu umsókna, geta nálgast söluskýrslur og framlegðarskrá en auk þess eru birtar almennar fréttir sem snúa að samskiptum birgja og ÁTVR.
Hægt er að skrá vörur til sölu í vefbúð og einfalda viðskiptavinum þannig að sérpanta vörur sem ekki eru í vöruvali Vínbúða.
Að jafnaði eru árlega haldnir tveir fundir fyrir birgja. Markmiðið er að miðla upplýsingum um ýmsa þætti í rekstri og framkvæmd reglna sem snúa að samskiptum ÁTVR og birgja.
Til að fá fram skoðanir birgja á ýmsum þáttum er árlega framkvæmd viðhorfskönnun. Við úrvinnslu er birgjum skipt í tvo flokka eftir veltu. Stórir birgjar eru þeir sem hafa yfir 200 m.kr. viðskipti á ársgrundvelli við ÁTVR en minni þeir sem eru með viðskipti undir þeirri upphæð. Almennt eru stærri birgjar ánægðari en þeir minni. Niðurstöðurnar eru rýndar um leið og leitað er leiða til að gera betur í samskiptum og þjónustu.
með ÁTVR
Ánægja birgja með ÁTVR í heildina hækkaði á milli ára, var 4,02 en var 3,95 árið áður. Birgjar eru almennt ánægðir með upplýsingagjöf frá ÁTVR og svara 80% að þeir séu mjög eða frekar ánægðir. Þjónusta einstakra deilda fær einnig góða einkunn og innkaupadeildin sem að jafnaði er í mestum samskiptum við birgja fær frábæra einkunn en 92% birgja eru mjög eða frekar ánægðir með þjónustu deildarinnar. Þær áskoranir sem ÁTVR stendur jafnan frammi fyrir í samskiptum við birgja er að tryggja hlutleysi við ákvarðanir og á það jafnt við um val, innkaup, dreifingu og framstillingu vöru.
Önnur innkaup
Vistvæn innkaup (VINN) er samstarfsvettvangur opinberra aðila en markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænum innkaupum og þar með grænum ríkisrekstri. ÁTVR er þátttakandi og skilar inn tölum um grænt bókhald. Sett eru mælanleg markmið og fylgst með niðurstöðunni mánaðarlega. Markvisst er unnið að því að auka hlut vistvænna vara á öllum starfsstöðvum s.s. með innkaupum á lífrænt vottuðum vörum fyrir mötuneyti.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins
Stuðlaháls 2 vinbudin@vinbudin.is vinbudin.is